Höfundar efnisins eru Dr. Rannveig Oddsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, Íris Hrönn Kristinsdóttir, sérfræðingur við Miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri og Inga María Brynjarsdóttir, myndlistamaður.
Hugmyndin að efninu kviknaði þegar við, Rannveig og Íris, fórum að vinna saman á Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri árið 2016, á þessum tíma tókum við m.a. þátt í þróunarstarfi með leikskólanum Öspinni í Reykjavík þar sem við unnum með myndaþemu (kenna tengd orð saman) sem leið til að efla mál barna sem læra íslensku sem annað tungumál. Við vorum einnig með ýmis námskeið tengd málrækt í leikskólum og urðum varar við að mikla þörf fyrir vandað efni og fræðslu fyrir leikskólakennara og annað starfsfólk leikskóla um íslenskukennslu barna af erlendum uppruna.
Við ákváðum að sækja um styrk til þróa slíkt efni og fengum leikskólann Iðavöll með okkur í þróunarvinnuna en Iðavöllur er sá leikskóli á Akureyri þar sem hlutfall fjölskyldna af erlendum uppruna er hæst. Þar leiddu Iris Rún Andersen og Ólöf Jónasdóttir vinnuna, voru okkur innan handar og tóku m.a. að sér að sjá um að setja orðasöfnin inn í Bitsboard. Inga María Byrnjarsdóttir myndlistamaður var fengin til að teikna myndirnar og seinna komu leikskólarnir Árbær á Selfossi og Krílakot á Dalvík einnig inn í verkefnið og tóku þátt í að prófa efnið með börnum.
Við lögðum strax í upphafi upp með að efnið yrði ókeypis fyrir alla, bæði starfsfólk og foreldra, og með dyggum stuðningi Þróunarsjóðs námsgagna, Sprotasjóðs, Þróunarsjóðs innflytjenda, KEA, Norðurorku og Stefnu hefur sá draumur orðið að veruleika. Við byrjuðum smátt en smám saman hefur verkefnið vaxið og dafnað og er námsefnið nú nýtt í fjöldamörgum leikskólum á Íslandi.
Við byggðum efnið á fræðum og rannsóknum um tvítyngi og það sem hefur reynst vel til að efla orðaforða tvítyngdra barna. Okkur fannst mikilvægt að efnið væri þannig að hægt væri að vinna með það í tengslum við annað sem unnið er í leikskólanum og það hjálpaði kennurum að vinna með grunnorðaforða íslenskunnar. Okkur fannst líka mikilvægt að efnið væri opið þannig að kennarar gætu aðlagað vinnu með það að sínum leikskóla og barnahópnum hverju sinni.
Við vonum að efnið nýtist vel og á fjölbreyttan hátt í leikskólastarfinu,
Bestu kveðjur til ykkar allra,
Íris Hrönn og Rannveig