Samræðustundir í Orðaleik


Samræðustundir í Orðaleik

Námsefnið Samræðustundir í Orðaleik hefur að markmiði að efla samræðu- og tjáningarhæfni barna í leikskóla og á yngsta stigi grunnskóla.

Samræðustundirnar byggja á grunni rannsókna um málhæfni og mikilvægi samræðna sem námsleiðar. Lögð er áhersla á hagnýtar aðferðir sem efla samtalsfærni og sjálfstraust barna í gegnum munnleg samskipti. Námsefnið styður við tileinkun orðaforða og samræður í gegnum markvissar spurningar, leiki, spil og þrautalausnir. Hugað er sérstaklega að þörfum barna sem læra íslensku samhliða öðrum tungumálum en efnið gagnast öllum börnum sem þurfa stuðning og þjálfun í að nota málið.

Efnið er hluti af þeim aðferðum, verkfærum og hugmyndum sem kennarar geta sótt á vefsíðu Orðaleiks og samanstendur af handbók og rafrænum samræðubókum sem tengjast orðaþemum Orðaleiks. Efnið er notendum að kostnaðarlausu, það er aðgengilegt á vef og geta notendur prentað það út eða notað rafrænt.

Handbókin og rafrænu samræðubækurnar sem henni fylgir er gefið út af Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Námsefnið var styrkt af Þróunarsjóði námsgagn

Handbók
Í handbókinni er að finna fræðilegt og hagnýtt efni um þróun og tileinkun tungumálsins. Gerð er grein fyrir þeim aðferðum sem notaðar eru í námsefninu og taldar eru gagnlegar við kennslu barna sem þurfa sérstakan stuðning við tileinkun málsins.

Mat samræðum
Aftast í handbókinni er að finna einfaldan matslista fyrir kennara til að fylgjast með árangri barnanna með reglubundinni skráningu.

Rafrænar samræðubækur
Í rafrænu samræðubókunum er að finna myndir sem eru grunnur samræðna og leikja. Spurningar eru settar fram samkvæmt ákveðnu skipulagi sem leiðir samræður frá hinu einfalda til hins flókna. Markmiðið er að efla skilning og tjáningu á markvissan hátt í gegn um fjölbreytt viðfangsefni og virka notkun tungumálsins.

Athafnir
Farartæki
Gæludýr
Samfélagið - skólar
Samfélagið - heilsa og öryggi
Samfélagið - störf og staðir
Staðsetningar- og afstöðuhugtök
Villt dýr


Námsefnið

Í námsefninu Samræðustundir í orðaleik er lögð áhersla á markvissa vinnu með orðaforða, skilning og tjáningu barna undir handleiðslu kennara.

Rafrænu samræðubækurnar eru efniviðurinn sem kennarar nota í vinnu með börnunum. Hver bók inniheldur ákveðið orðaþema sem spurningar, samræður og leikir beinast að.

Kennarar geta valið úr orðaþemum sem vekja áhuga og forvitni barnanna og í vinnu við bókina geta þeir valið þyngdarstig spurninga sem fellur að stöðu og færni í notkun tungumálsins.

Mælt er með að unnið sé í litlum hópum þar sem börnin fá tækifæri til að ræða saman í hópi jafningja undir leiðsögn kennara. Einnig getur kennari sest með einu barni og átt við það innihaldsríkt samtal með aðstoð bókarinnar.

Samræðubækurnar eru byggðar þannig upp að hver opna inniheldur mynd á vinstri síðu en á hægri síðu eru spurningar og leiðbeiningar ætlaðar kennara. Hentugt er að vinna með samræðubækurnar í spjaldtölvu en einnig má prenta myndir út og gera þannig aðgengilegar börnunum og nota á fjölbreyttan hátt í skólastarfinu. Með notkun samræðubókanna opnast góð leið til samvinnu og tengsla við heimili barnanna. Auðvelt er að senda slóð eða kóða að bókinni sem unnið er með hverju sinni, en bækurnar opnast í síma, spjaldtölvu og tölvu.


Spurningarammi Blanks

Samræðubækurnar byggja á spurningaramma Dr. Marion Blank sem er í fjórum þrepum og styður við stigvaxandi færni barna í notkun tungumálsins. Farið er frá einföldum hlutlægum spurningum til flóknari, óhlutbundinna spurninga. Samræður út frá spurningarammanum stuðla að eflingu orðaforða og þróun almennrar hæfni í notkun tungumálsins.

Markvissar samræður, byggðar á áhugasviði barna styðja við virkni og sköpun og auka færni og sjálfstraust í tjáningu. Með því að nota Blank spurningaramman er hægt að velja spurningar sem henta þroska hvers barns. Börn læra að lýsa, útskýra, draga ályktanir og finna lausnir í gegnum samræður, leiki og í daglegum aðstæðum.