Smáforrit

Það er um að gera að nýta tæknina og þau námstækifæri sem hún býður upp á til að efla orðaforða barna.

Hér fyrir neðan eru nokkur smáforrit sem við mælum með til að styðja við orðanám barnanna.

 

 

Bitsboard

Bitsboard er smáforrit fyrir Ipad spjaldtölvur. Myndasöfnin í Orðaleik er hægt að sækja í Bitsboard. Í Bitsboard er hægt að fletta í gegnum myndirnar og hlusta á orðin lesin upp, einnig er hægt að fara í fjölbreytta leiki þar sem myndirnar úr orðasöfnunum eru í aðalhlutverki.

Til að ná í Bitsboard verkefnin er best að hlaða niður Bitsboard smáforritinu í App Store og leita svo að Orðaleikur í Catalog. Þar er hægt að gerast áskrifandi að verkefnasafninu og fá sjálfkrafa uppfærslur þegar nýtt efni bætist við.

Við mælum með því að skólar fjárfesti í Pro útgáfunni, hún hefur reynst betur en ókeypis útgáfan. 


 

Book Creator

Book Creator er forrit sem hægt er að nota til að búa til rafbækur. Auðvelt er að deila bókum með öðrum og hentar forritið því vel til að búa til hvers kyns félagshæfnisögur, orða- eða fræðslubækur fyrir börn af erlendum uppruna.

Börnin geta tekið þátt í að búa til bækurnar og þær geta innihaldið myndir, myndbönd, hljóðupptökur, teikningar, kort og texta. Hægt er að nota myndirnar úr Orðaleik í bland við myndir sem börnin taka af raunverulegum hlutum og persónum í umhverfinu auk myndbanda. Börnin geta skoðað bækurnar heima og foreldrar geta tekið þátt t.d. með því að lesa inn orð á móðurmáli barnanna.

Kennarar geta útbúið sér kennaraaðgang á vefsíðu Book Creator og fá þá 40 bækur ókeypis. 


 

Osmo

Myndirnar í Orðaleik henta vel til að nota með Osmo Words smáforritinu sem margir leikskólar og skólar eiga. Í Osmo Words er unnið er með bókstafaþekkingu, hljóðkerfisvitund og stafsetningu í gegnum spennandi orðaleik.

Það getur verið tímafrekt að finna myndir af ákveðnu þema og geta myndirnar í Orðaleik nýst vel í þeim tilgangi bæði til að búa til verkefni fyrir íslensku og erlend tungumál.

Til eru nokkur orðasöfn sem hægt er að sækja á sameiginlegt svæði hjá Osmo, þá þarf að velja discover og leita að ordaleikur eða icelandic.


 

Puppet Pals

Puppet Pals er smáforrit sem hægt er að nota á fjölbreyttan hátt í skapandi vinnu með málið. Í Puppet Pals geta börnin búið til sögur og leikrit. Þau velja eða búa til persónur og bakgrunna, búa til söguþráð og segja sögu í máli og myndum. Hægt er að taka söguna upp og skoða aftur seinna eða deila henni með öðrum.

Í Puppet Pals er hægt að taka ljósmyndir eða myndir af vefnum og bæta inn í sögurnar. Þetta gefur möguleika á fjölbreyttri sköpun og undirbúningsvinnu, t.d. er hægt að teikna sögupersónur og bakgrunna og setja inn í sögurnar eða taka ljósmyndir af börnunum. Í Puppet Pals vinnum við með t.d. orðaforða, framsögn, endursögn og málvitund. Einnig læra börnin hugtök tengd sögugerð og læra að byggja upp sögur.


 

Book Recorder

Book Recorder er ókeypis smáforrit fyrir Ipad spjaldtölvur sem hægt er að nota til að búa til hljóðbækur, hentar sérstaklega vel fyrir myndabækur. Kennarinn les inn hverja síðu fyrir sig og setur hljóð þegar fletta á yfir á næstu síðu. Barnið getur svo hlustað á söguna og skoðað myndirnar í bókinni á meðan. Hljóðmerkið gefur til kynna hvenær barnið á að fletta yfir á næstu síðu.

Forritið getur verið sniðugt í foreldrasamstarfi þar sem foreldrar geta tekið þátt í að lesa inn bækur á sínu móðurmáli en með þeim hætti geta börn af erlendum uppruna bæði hlustað á bækur á móðurmálinu og á íslensku í leikskólanum. Upptökurnar má svo hlusta á aftur og aftur.

Einnig er hægt að leyfa börnunum sjálfum að taka upp sögur, þau geta lesið bækurnar á sinn hátt og sett hljóðmerki þegar þau vilja að sá sem hlustar fletti af einni blaðsíðu á aðra. Þetta er skemmtileg leið til að þjálfa börnin í að segja frá.

Book Recorder er áhugavert smáforrit fyrir litla bókaorma sem eru að æfa sig í að hlusta á og nota tungumálið.