Vefnámskeið skólaárið 2022-2023

Vinnusmiðjur fyrir leikskóla

Næsta vetur munum við bjóða upp á vinnusmiðjur fyrir leikskóla á vefnum eða í húsnæði Háskólans á Akureyri. Smiðjurnar eru 3 1/2 tími með stuttu kaffihléi og klukkutíma eftirfylgd 3-6 mánuðum seinna.

Lögð er áhersla á að tvinna saman fræðslu og umbótastarf.

Lagt er upp með að í lok smiðjunnar hafi starfsfólk fengið fræðslu um málörvun barna af erlendum uppruna auk kynningar á Orðaleiks námsefninu. Einnig að starfsfólk hverrar deildar í leikskólanum hafi fengið tækifæri til að ígrunda og ræða saman um hvernig unnið er með börnum af erlendum uppruna í leikskólanum, hvernig væri hægt að gera betur og hvaða markmiðum starfsfólk hefur áhuga á að vinna að.

Unnin er umbótaáætlun (ein á hverri deild) þar sem að starfsfólk setur sér 1-3 markmið og útfærir þau. 3-6 mánuðum seinna hittir ráðgjafi starfsfólkið aftur og fer yfir með því hvernig hefur gengið og hvað verður unnið með næst. 

Smiðjurnar eru byggðar upp á eftirfarandi hátt:

  • Fyrirlestur um málörvun barna af erlendum uppruna
  • Verkefnavinna þátttakenda - Skoðum hvað við erum að gera í leikskólanum til að efla mál og skilning barna af erlendum uppruna í leikskólanum.
  • Kynning á Orðaleik (námsefni og vefsíðu)
  • Verkefnavinna þátttakenda - Skoðum hvernig við getum gert betur þegar kemur að málörvun barna af erlendum uppruna í leikskólanum
  • Markmið og umbætur - þátttakendur vinna umbótaáætlun og setja sér markmið
  • Umræður og hver deild kynnir sín markmið og hvernig áætlað er að vinna að þeim
  • 3-6 mánuðum seinna - fundur með ráðgjafa þar sem farið er yfir hvernig gengur og hvað á að vinna með næst


Verð: 140.000 (hálfs dags námskeið með eftirfylgd).


Vefnámskeið fyrir einstaklinga - væntanlegt

Gagnlegt námskeið fyrir leikskólakennara, sérkennara og aðra sem starfa með börnum á leikskólaaldri. Fjallað verður um nám og kennslu barna af erlendum uppruna og hvernig hægt er að nýta námsefnið Orðaleik til að efla mál þeirra. Námskeiðið fer alfarið fram í gegnum vefinn, þátttakendur læra á eigin hraða, hlusta á fyrirlestra og lesa efnið. Í lok hvers námskeiðs verður boðið upp á fund (frjáls mæting) með Írisi og/eða Rannveigu þar sem þátttakendur geta spjallað við höfunda Orðaleiks og fengið ráðgjöf. 

Á námskeiðinu er fjallað um orðaforða barna á leikskólaaldri með sérstakri áherslu á orðaforða barna sem læra íslensku sem annað mál. Fjallað er um orðanám barna og hvernig hægt er að efla orðaforðann með markvissum hætti í leik og starfi. Einnig er fjallað um mikilvægi móðurmálsins, kennsluáætlanagerð og samstarf við foreldra. Námsefnið Orðaleikur er skoðað og hvaða möguleika það býður upp á í leikskólastarfi. Að lokum verður fjallað um nokkur áhugaverð forrit sem hægt er að nýta til að efla mál barna af erlendum uppruna.